

Forstöðulæknir bráða-, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu
Landspítali auglýsir laust til umsóknar starf forstöðulæknis bráða-, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu samkvæmt nýju skipuriti spítalans sem tók gildi 1. apríl 2024. Forstöðulæknir starfar innan bráða-, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu og leiðir lækningar innan sviðsins.
Innan bráða-, lyflækninga- og endurhæfingaþjónustu eru sérgreinar bráðalækninga og utanspítalaþjónusta, endurhæfingarlækningar, gigtlækningar, húð- og kynsjúkdómalækningar, innkirtlalækningar, lungna- og svefnlækningar, lyflækningar, meltingalækningar, nýrnalækningar, taugalækningar, smitsjúkdómalækningar og öldrunarlækningar.
Hlutverk forstöðulæknis er að þróa þjónustu við sjúklinga innan bráða-, lyflækninga - og endurhæfingaþjónustu og vinna að samhæfingu við aðra starfsemi spítalans í samræmi við stefnu og starfsáætlun Landspítala.
Forstöðulæknir heyrir undir framkvæmdastjóra og er hluti af sviðsstjórn sem ber ábyrgð á stefnumótun og rekstri. Forstöðulæknir leiðir ásamt forstöðuhjúkrunarfræðingi teymi framlínustjórnenda, þ.e. yfirlækna og deildarstjóra, sem hafa það sameiginlega verkefni að samhæfa, efla og þróa þá þjónustu sem veitt er á öruggan, faglegan og hagkvæman hátt. Forstöðulæknir ber ríkar og gagnkvæmar skyldur til samvinnu, samráðs og uppbyggingar teymisvinnu.
Leitað er að kraftmiklum leiðtoga, með klínískan bakgrunn, sem hefur brennandi áhuga á að vinna að því að byggja upp sterka liðsheild og að framfylgja stefnu, markmiðasetningu og framtíðarsýn spítalans.
Um er að ræða 100% starf. Auk stjórnunarhlutverks er gert ráð fyrir þátttöku í klínísku starfi í samráði við framkvæmdastjóra.































































