Sérfræðilæknir á Sýkla- og veirufræðideild (SVEID)
Laust er til umsóknar starf sérfræðilæknis á Sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Starfshlutfall er 100%, nema að um annað sé samið. Skilyrði er sérfræðiþekking í sýkla- og/ eða veirufræði. Umsækjanda er gefinn kostur á því að helga sig annað hvort sýkla- eða veirufræði eða hvoru tveggja (sem væri æskilegt). Unnið er í dagvinnu og á bakvöktum með viðveru um helgar. Starfið laust eftir samkomulagi.
Sýkla- og veirufræðideild er þjónustu- og tilvísunarrannsóknastofa fyrir Ísland á sviði bakteríu-, veiru-, sveppa- og sníkjudýrafræði. Deildin vinnur með sóttvarnarlækni og öðrum heilbrigðisstofnunum að bættri lýðheilsu og öflun faraldsfræðilegra gagna. Jafnframt sinnir deildin menntun heilbrigðisstarfsfólks og vísindarannsóknum.
Veirufræðihluti deildarinnar er staðsettur í Ármúla 1a, en sýklafræðihlutinn er að mestu leyti staðsettur á lóð Landspítala við Barónsstíg.
Á deildinni starfa um 80 einstaklingar, þar af eru nú átta sérfræðilæknar í tæpum sjö stöðugildum og tveir sérfræðilæknar í tímavinnu. Einn almennur læknir er á deildinni, en til stendur að ráða fleiri.
Menntunar- og hæfniskröfur
Íslenskt sérfræðileyfi í sýkla- og/ eða veirufræði eða uppfyllt skilyrði um íslenskt sérfræðileyfi, sem aflað yrði hið fyrsta
Góð íslensku- og enskukunnátta
Þekking og reynsla af veirufræði og/ eða bakteríu-, sveppa-og sníkjudýrafræði
Þekking og reynsla af gæðastjórnunarkerfi
Hæfni í mannlegum samskiptum
Mikilvægt er að umsækjendur geti unnið sem hluti af teymum, en geti líka starfað sjálfstætt að verkefnum.
Þekking og reynsla af gæða-, öryggis- og umbótastarfi er æskileg
Reynsla af kennslu og vísindastörfum er æskileg kostur
Helstu verkefni og ábyrgð
Almenn sérfræðilæknisstörf á Sýkla- og veirufræðideild
Þátttaka í faglegri umsjón sérfræðilækna með starfseiningum deildarinnar
Val, þróun og innleiðing nýrra rannsókna/ greiningaaðferða í samráði við yfirlækni og aðra stjórnendur
Frumkvæði og þátttaka í gæðastjórnun
Túlkun og staðfesting rannsóknarniðurstaðna
Almenn ráðgjöf á sviði sýkla- og veirufræði til starfsfólks Landspítala og til annarra stofnana og fagaðila
Þátttaka í vöktum sérfræðilækna (bakvaktir með viðveru á hátíðisdögum og um helgar)
Kennsla og leiðsögn í faginu fyrir heilbrigðisstarfsfólk og nema
Þátttaka í vísindarannsóknum tengdum viðkomandi sérgreinum er æskileg
Önnur verkefni sem taka mið af þekkingu og reynslu viðkomandi