

Ertu sérfræðingur í gjörgæsluhjúkrun?
Laust er til umsóknar starf sérfræðings í gjörgæsluhjúkrun á gjörgæsludeildum Landspítala með starfsstöð í Fossvogi. Gert er ráð fyrir að sérfræðingur starfi í báðum húsum en megin starfsstöð verður í Fossvogi. Starfshlutfall er 100% og er starfið laust 1. september 2025 eða eftir nánara samkomulagi.
Sérfræðingur í gjörgæsluhjúkrun starfar samkvæmt starfslýsingu sérfræðinga í hjúkrun á Landspítala. Sérfræðingur í gjörgæsluhjúkrun starfar að framþróun hjúkrunar á gjörgæsludeildum Landspítala, gæða- og umbótaverkefnum, ráðgjöf, kennslu og fræðslustarfsemi til starfsfólks og nemenda og tekur þátt í akademískri vinnu með þátttöku í rannsóknastarfi. Auk þess er gert ráð fyrir að sérfræðingur starfi við klínísk störf á gjörgæsludeildum spítalans. Starfið felur jafnframt í sér uppbyggingu, samræmingu og skipulagningu þjónustu við skjólstæðinga í samvinnu við aðrar heilbrigðisstéttir.
Við leitum eftir einstaklingi sem laðar til sín fólk til samstarfs, hefur farsæla reynslu af því að leiða teymi og leggur áherslu á að skapa traust á milli aðila og stuðlar að sálrænu öryggi.
Á gjörgæsludeildum Landspítala starfar samhent þverfaglegt teymi sem þjónar sjúklingum sem þurfa á gjörgæslutengdri þjónustu að halda bæði á skurðstofum og utan þeirra. Sérsvið gjörgæslu fylgir hraðri framþróun og fylgst er vel með nýjungum á alþjóðlegum vettvangi.
Sérfræðingur í hjúkrun vinnur sjálfstætt á sérsviði gjörgæsluhjúkrunar skv. reglugerð nr. 512/2013 og ber ábyrgð á starfi sínu gagnvart stofnun og næsta yfirmanni.


























































