

Sérfræðingur í málefnum leik- og grunnskóla
Mennta- og barnamálaráðuneytið auglýsir laust til umsóknar starf sérfræðings á skrifstofu stefnumótunar og innleiðingar. Leitað er að einstaklingi sem hefur þekkingu og reynslu af málefnum leik- og/eða grunnskóla, með sérstaka áherslu á aðalnámskrár þessara skólastiga, námsgögn og námsmat. Umsækjandi þarf að vera tilbúinn að takast á við fjölbreytt, krefjandi og áhugaverð verkefni þar sem reynir á hæfni í teymisvinnu, öguð og sjálfstæð vinnubrögð ásamt ábyrgð.
Skrifstofa stefnumótunar og innleiðingar vinnur að stefnumótun og framgangi stefnumála ráðherra og ríkisstjórnar í umboði ráðherra. Skrifstofan hefur yfirumsjón með innleiðingu stefnumála og annarra verkefna á málefnasviði ráðuneytisins sem eru m.a. menntamál, barna- og fjölskyldumál og íþrótta- og æskulýðsmál.
Starfsfólk skrifstofunnar tekur virkan þátt í teymisvinnu þvert á ráðuneytið og styður við verkefni annarra skrifstofa, starfsfólks og stofnana ráðuneytisins í samræmi við fagþekkingu og tekur þátt í samstarfi við aðila utan ráðuneytis. Ef þú hefur áhuga á að starfa í faglegu, kviku og skemmtilegu vinnuumhverfi þar sem starfsfólk brennur fyrir umbótum á sviði mennta- og barnamála þá gæti þetta verið starf fyrir þig.
- Háskólamenntun sem nýtist í starfi.
- Þekking og reynsla af málefnum leik- og/eða grunnskóla.
- Listmenntun er kostur.
- Þekking og reynsla af opinberri stjórnsýslu.
Við mat á umsóknum verður litið til þess hvort umsækjandi sé lausnamiðaður, jákvæður, nákvæmur í vinnubrögðum, skipulagður með góða hæfni í mannlegum samskiptum og geti sýnt sveigjanleika og frumkvæði. Viðkomandi þarf að geta unnið sjálfstætt sem og í hópi og vera tilbúinn að takast á við krefjandi verkefni við fjölbreyttar aðstæður. Þá þarf viðkomandi að hafa gott vald á íslensku og ensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti. Þekking á einu Norðurlandamáli er kostur, sem og reynsla af öðrum málefnasviðum skrifstofunnar.
Frekari upplýsingar um starfið
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hafa gert.
Starfið er tímabundið til eins árs. Æskilegt er að umsækjandi geti hafið störf sem fyrst. Umsókn um starfið þarf að fylgja ítarleg ferilsskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningi fyrir hæfni umsækjanda í starfið.
Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Umsóknir gilda í 6 mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út, sbr. 2. gr. reglna um auglýsingar á lausum störfum nr. 1000/2019. Við ráðningar í störf hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu er tekið mið af jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins.
Í mennta- og barnamálaráðuneytinu starfa um 75 starfsmenn með fjölbreytta menntun og bakgrunn. Ráðuneytið er fjölskylduvænn vinnustaður þar sem lögð er áhersla á samvinnu og góðan starfsanda í samræmi við mannauðs- og viðverustefnu Stjórnarráðsins.
Nánari upplýsingar veitir Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, netfang: [email protected], sími: 545 9500.
Íslenska










