

Tengiliður farsældar barna - Áslandsskóli
Áslandsskóli óskar eftir að ráða tengilið farsældar barna fyrir skólaárið 2025-2026.
Áslandsskóli var stofnaður árið 2001 og er staðsettur í Áslandsshverfi í Hafnarfirði. Áslandsskóli er heildstæður grunnskóli með 1.-10.bekk og eru nemendur um 430 talsins. Einkunnarorð Áslandsskóla eru samvinna, ábyrgð, tillitsemi og traust. Áslandsskóli er heilsueflandi grunnskóli með og er unnið markvisst að þeim málum innan skólans. Lögð er áhersla á að nemendur fái námsefni við hæfi og þrói þannig og þroski hæfileika sína með markvissum hætti. Í skólanum er lögð áhersla á vellíðan nemenda og góðan námsárangur.
Í skólanum er unnið eftir SMT skólafærni þar sem lögð er áhersla á að nálgast nemendur á jákvæðan hátt, gefa góðri hegðun gaum, styrkja og efla jákvæð samskipti milli nemenda og skapa jákvæðan skólabrag.
Skólinn byggir stefnu sína á fjórum stoðum náms og menntunar sem eru:
Allar dygðir, Hnattrænn skilningur, Þjónusta við samfélagið, Að gera allt framúrskarandi vel
Ráðið verður í starfið frá og með 1. september og er starfið tímabundið í eitt ár. Starfshlutfall ráðningar er 50% en möguleiki er á aukningu í starfshlutfalli í öðrum störfum innan skólans s.s. kennslu.
Markmið með starfi tengiliðar farsældar barna í leik- og grunnskólum er að stuðla að því að nemendur og foreldrar sem á þurfa að halda hafi greiðan aðgang að samþættri þjónustu við hæfi.
Helstu verkefni og ábyrgð:
- Veita foreldrum og nemendum sem á þurfa að halda upplýsingar um samþætta farsældarþjónustu
- Skipuleggja, samhæfa og fylgja eftir þjónustu á fyrsta stigi samþættingar í kjölfar frummats
- Meta og/eða eiga samráð um mat á þörf fyrir annars eða þriðja stigs þjónustu og þar með skipan málstjóra
- Stuðla að þátttöku foreldra og nemenda í ákvarðanatöku og úrræðum
- Samvinna og fræðsla til stjórnenda, kennara og annars starfsfólks skóla
- Önnur verkefni samkvæmt starfslýsingu
Menntunar- og hæfniskröfur:
- Leyfisbréf kennara/löggild starfsréttindi heilbrigðisstéttar eða sambærileg menntun sem tengist starfi með börnum og fjölskyldum
- Nám á framhaldsstigi í farsæld barna er kostur
- Haldgóð reynsla af starfi með börnum og eftir atvikum fjölskyldum
- Þekking á verkefnastjórnun er kostur
- Þekking á snemmtækum og hagnýtum verkfærum til stuðnings nemendum
- Leikni í ráðgjöf í þverfaglegu samstarfi
- Samskiptahæfni og jákvætt viðmót
- Góð íslensku- og enskukunnátta og hæfni til að tjá sig í ræðu og riti
Gerð er krafa um hreint sakavottorð við ráðningu.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Unnur Elfa Guðmundsdóttir skólastjóri, [email protected], og Hálfdan Þorsteinsson aðstoðarskólastjóri [email protected] eða í síma 585-4600.
Umsóknarfrestur er til og með 31. ágúst 2025.
Greinargóð ferilskrá fylgi umsókn.
Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga við viðkomandi stéttarfélag.
Vakin er athygli á stefnu Hafnarfjarðarbæjar að jafna hlutfall kynjanna í störfum hjá bænum og að vinnustaðir bæjarins endurspegli fjölbreytileika samfélagsins.










































