

Sérfræðilæknir í klínískri ónæmisfræði og/ eða blóðgjafafræði
Laust er til umsóknar starf sérfræðilæknis við Blóðbanka- og ónæmisfræðiþjónustu Landspítala. Starfshlutfall er 100%, nema um annað verði samið. Til greina getur komið að ráða lækni með sérfræðiviðurkenningu í skyldum greinum, svo sem öðrum rannsóknagreinum eða blóðsjúkdómafræði.
Blóðbanka- og ónæmisfræðiþjónusta Landspítala varð til við sameiningu Blóðbankans og ónæmisfræðideildar Landspítala í eina kjarnaeiningu árið 2025. Eftir sameininguna starfa á deildinni um hundrað einstaklingar, læknar, lífeindafræðingar, náttúrufræðingar, hjúkrunarfræðingar, skrifstofufólk og aðrir. Starfsandinn einkennist af metnaði, samvinnu, stuðningi og góðum liðsanda. Unnið er í öflugum þverfaglegum teymum innan deildar sem og í nánu samstarfi við aðrar starfseiningar Landspítala.
Hin nýja sameinaða deild veitir alhliða blóðbanka- og ónæmisfræðiþjónustu og er ein sinnar tegundar á Íslandi. Deildin sinnir meðal annars innköllun og nýliðun blóðgjafa, blóðsöfnun, blóðhlutavinnslu, stofnfrumuvinnslu, vefjaflokkagreiningum vegna líffæraígræðslna sem og öðrum þjónusturannsóknum í tengslum við fyrrgreinda þjónustuþætti. Á ónæmisfræðihluta deildarinnar er veitt sérhæfð þjónusta til að greina ofnæmissjúkdóma, gigtar- og sjálfsónæmissjúkdóma, ónæmisgalla og annars konar konar van- eða ofstarfsemi ónæmiskerfisins. Nýttar eru fjölbreytilegar rannsóknaraðferðir til mats og greiningar virkni ónæmiskerfisins. Í tengslum við blóðbanka- og ónæmisfræðiþjónustu Landspítala er rekin göngudeild á sviði ofnæmis- og ónæmislækninga.
Á Blóðbanka- og ónæmisfræðiþjónustu Landspítala fer fram öflug kennsla háskólanema, starfsþjálfun nema í heilbrigðisgreinum, sem og kraftmiklar vísindarannsóknir í samvinnu við rannsakendur innan og utan Landspítala. Deildin hefur formleg tengsl við læknadeild Háskóla Íslands og við Háskólann í Reykjavík.



































