

Deildarlæknir við Blóðbanka- og ónæmisfræðiþjónustu
Laust er til umsóknar starf deildarlæknis (almenns læknis, læknis með lækningaleyfi) við Blóðbanka- og ónæmisfræðiþjónustu Landspítala. Starfshlutfall er 100% og er starfið laust frá 1. september 2025 eða eftir samkomulagi. Staðan er til 6 mánaða, með möguleika á framlengingu. Við leitum fyrst og fremst að lækni sem kynni að hafa áhuga á að leggja ónæmisfræði og/eða blóðgjafafræði fyrir sig sem sérgrein. Þetta starf getur líka hentað vel þeim sem hafa áhuga á sérfræðinámi í öðrum sérgreinum, til dæmis öðrum rannsóknasérgreinum, lyflækningum, skurðlækningum eða svæfingalæknisfræði. Þó skal tekið fram að auglýst staða telst hvorki til formlegs sérnáms né sérfræðiréttinda á Íslandi eða í öðrum Evrópuríkjum.
Blóðbanka- og ónæmisfræðiþjónusta Landspítala varð til við sameiningu Blóðbankans og ónæmisfræðideildar Landspítala í eina kjarnaeiningu. Eftir sameininguna starfa á deildinni um hundrað einstaklingar, læknar, lífeindafræðingar, náttúrufræðingar, hjúkrunarfræðingar, skrifstofufólk og aðrir. Hin nýja sameinaða deild veitir alhliða blóðbanka- og ónæmisfræðiþjónustu og er ein sinnar tegundar á Íslandi. Starfsandi á deildinni einkennist af metnaði, samvinnu, stuðningi og góðum liðsanda.
Eins og fram hefur komið er á Blóðbanka- og ónæmisfræðiþjónustu Landspítala rekin alhliða blóðbankaþjónusta, meðal annars innköllun og nýliðun blóðgjafa, blóðsöfnun, blóðhlutavinnsla, stofnfrumuvinnsla, vefjaflokkanir í tengslum við líffæraígræðslur auk annarra þjónusturannsókna. Á ónæmisfræðihluta deildarinnar er veitt sérhæfð þjónusta til að greina ofnæmissjúkdóma, gigtar- og sjálfsónæmissjúkdóma, ónæmisgalla og ýmis konar vanstarfsemi eða ofstarfsemi í ónæmiskerfinu. Nýttar eru fjölbreyttar rannsóknaraðferðir til greiningar og mats starfsemi ónæmiskerfisins. Í tengslum við deildina er rekin sérstök göngudeild á sviði ofnæmis- og ónæmislækninga á Landspítalanum í Fossvogi (á deild A3).












































