

Sjúkraþjálfari – spennandi starf í fjölbreyttu og hlýlegu umhverfi Sunnuhlíðar
Um starfið
Sjúkraþjálfari óskast til starfa í sjúkraþjálfun Sunnuhlíðar. Starfið er laust frá og með 15. desember 2025. Full vinnuvika er 36 klst. Starfshlutfall er umsemjanlegt, en gert er ráð fyrir 87% hlutfalli.
Við erum að leita eftir hressum og glaðlegum einstaklingi sem er flinkur í samskiptum og hefur áhuga á að vinna með fjölbreyttum hópi aldraðra. Viðkomandi þarf að hafa fullgilt íslenskt starfsleyfi sem sjúkraþjálfari. Um er að ræða launþegastarf sem felst annars vegar í að sjá um sjúkraþjálfun fyrir íbúa hjúkrunarheimilisins og hins vegar eldri borgara, sem búa heima og sækja til okkar sjúkraþjálfun í göngudeildarþjónustu. Starfið sameinar þannig kostina við að vera í launþegastarfi í traustu teymi á hjúkrunarheimili og fjölbreytnina sem fylgir sjúkraþjálfun fyrir eldri borgara í opnu göngudeildarumhverfi. Notast er við Sögukerfið fyrir sjúkraskráningu íbúa og Gagna fyrir göngudeildargesti. Í sjúkraþjálfuninni rekum við einnig líkamsrækt fyrir 60 ára og eldri sem ber nafnið Smart líkamrækt Sunnuhlíð.
Algengur misskilningur er að halda að verkefni tengd sjúkraþjálfun með öldruðum séu einsleit, en svo er ekki. Hér gefast frábær tækifæri til að takast á við fjölbreyttar áskoranir, byggja á eigin reynslu og vaxa, bæði faglega og persónulega. Við lofum líflegu og skemmtilegu vinnuumhverfi þar sem fjölbreytt þjónusta og breiður hópur skjólstæðinga gerir starfið bæði krefjandi og gefandi. Blandan af íbúum, göngudeildargestum og þátttakendum í Smart líkamsrækt gerir það að verkum að hér er alltaf líf og fjör.
Í dag starfa átta starfsmenn á vegum sjúkraþjálfun Sunnuhlíðar, þar af þrír sjúkraþjálfarar, einn íþróttafræðingur og tveir aðstoðarmenn sjúkraþjálfara. Auk þeirra eru tveir starfsmenn sem eingöngu sinna Smart líkamsræktinni. Við leggjum okkur fram um að styðja við jafnvægi milli vinnu og einkalífs, við viljum að álag í starfi sé hæfilegt, hér er heitur matur í hádeginu og starfsmenn hafa aðgang að okkar frábæru Smart líkamsræktaraðstöðu.
Upplýsingar og umsókn
Hafið samband við Kristínu Harðardóttur í síma 854 8972 / 895 7976 eða í tölvupósti á [email protected] fyrir nánari upplýsingar. Frekari upplýsingar um sjúkraþjálfunina og frábæra aðstöðu Sunnuhlíðar til styrktarþjálfunar er að finna á heimasíðu hjúkrunarheimilisins á slóðinni: https://vigdisarholt.is/sunnuhlid/sjukrathjalfun-sunnuhlidar/
