

Ritlist - í samstarfi við Svikaskáld
Námskeiðið Ritlist er í samstarfi við Svikaskáld, sex kvenna skáldakollektív. Saman hafa þær gefið út fjórar ljóðabækur og skáldsöguna Olíu (2021) sem hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þær hafa haldið fjölmargar ritsmiðjur fyrir ungt fólk og staðið fyrir mánaðarlegum ljóðakvöldum í Gröndalshúsi.
Á ritlistarnámskeiði Svikaskálda munu nemendur kynnast fjölbreyttum hliðum skapandi skrifa og læra að nýta hin ýmsu tól úr verkfærakistu rithöfundarins. Námið skiptist í vinnustofur, heimaverkefni, þátttöku í rithringjum og tilsögn í upplestri. Kennsla fer fram eitt kvöld í viku, en þar fyrir utan vinna nemendur í textum sínum heima. Nemendur skila reglulega verkefnum til ritvina og kennara. Með ritvina fyrirkomulagi fá nemendur þjálfun í að veita og taka á móti gagnlegri endurgjöf og mynda samfélag skrifandi fólks. Námskeiðinu lýkur á upplestrarkvöldi. Nemendur munu að námskeiði loknu hafa í handraðanum úrval af ólíkum textum sem gætu nýst fólki sem hefur hug á að sækja um frekara ritlistarnám á háskólastigi eða sem efniviður í áframhaldandi skrif.